150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:33]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir að vekja máls á þessu ágæta málefni og hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar innlegg. Eins og hefur komið fram var markmið þessarar ríkisstjórnar að setja á fót þverpólitískan hóp í samráði við viðkomandi fagráðherra um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Þarna er verið að taka þátt í alþjóðlegri umræðu um betri skilning á velsæld, velmegun og félagslegum framförum. Eðlilegt er að við förum að horfa til fleiri þátta þegar kemur að mælingu á hagsæld og lífsgæðum. Merkja má aukna alþjóðlega umræðu um mælikvarða á það sem raunverulega hefur áhrif á líf fólks en ekki bara rekstrartölur ríkissjóðs og tekur Ísland virkan þátt í henni. Ásamt þeirri vinnu hefur starfshópur á vegum félags- og barnamálaráðherra, sem hefur verið leiddur af hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, unnið góða vinnu í málefnum barna.

Virðulegi forseti. Börnin eru framtíðin. Að öðrum mælikvörðum ólöstuðum heldur sú sem hér stendur að velferð barna sé mikilvægasti mælikvarðinn. Ég vek athygli á samstarfi félags- og barnamálaráðherra, Kópavogsbæjar, Köru Connect og UNICEF á nýju upplýsingakerfi, svokölluðu mælaborði um velferð barna sem byggir að miklu leyti á grunnstoðum barnasáttmálans, um jafnræði, það sem er barni fyrir bestu, rétt barns til að lifa og þroskast og rétt barns til að tjá sig. Okkur hefur skort þessi mælitæki hér á landi því að þegar upp koma alvarleg mál eða alvarleg staðreynd, eins og t.d. að 16% allra barna búi við ofbeldi, höfum við enga mælistiku til að takast á við það heldur reynum við að fara í einhverjar aðgerðir en erum (Forseti hringir.) kannski jafnnær af því að við getum ekki mælt hvernig þær virka.