150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu, hv. þm. Halldóru Mogensen, og forsætisráðherra fyrir að taka til máls. Þegar við fjöllum um víðfeðm málefni eins og hér getur að líta í skýrslunni sem nýlega er útkomin með 39 mælikvörðum er hættan kannski tvenns lags: Í fyrsta lagi sú að við rótum í yfirborðinu og í öðru lagi að við tölum og tölum og gerum ekki neitt. Málið er að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þrátt fyrir annmarka þess að hagvöxtur sé undirstaða lífsgæða eru peningar afl alls. Við getum ekki farið fram hjá því. Ég hjó hér eftir þremur atriðum af þessum 39, heilsu, öryggi og menntun. Við erum með biðlista í heilbrigðiskerfinu sem hamla mjög heilsu fólks á öllum aldri. Það hefur áhrif á öryggi fólks, sérstaklega þess fólks sem býr við kröppust kjör. Það kemur líka fram í því, af því að við höfum verið að tala um börn, að menntun á Íslandi er ekki eins ótrúlega góð og við höfum haldið fram lengi. Menntakerfið á Íslandi er mjög gallað.

Ég held að það sem við gerum best til að ná þeim markmiðum sem hér eru nefnd er að við hámörkum þann ábata sem við getum haft án þess að ganga enn frekar á umhverfið. Þá nefni ég frekari úrvinnslu, fínvinnslu, fjórða hagkerfið, þ.e. tæknina. Þetta þurfum við allt að nýta í þá vegu að við getum byrjað að nálgast þá 39 punkta sem hér eru nefndir. (Forseti hringir.) Ef við gerum þetta ekki með markvissum hætti verða þetta bara orðin tóm.