150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hv. málshefjanda og öðrum hv. þingmönnum fyrir þátttökuna. Ég dreg það út úr umræðunni að hv. þingmenn hafi talað um að það væri gott og vel að hafa mælikvarða en við yrðum að hafa eitthvert inntak á bak við þá mælikvarða. Ég segi á móti: Ef við mælum ekki inntakið er erfiðara að tala af viti um það hvert við viljum stefna.

Ég hef lagt á það mikla áherslu í minni tíð sem forsætisráðherra að gögn og upplýsingar eigi að vera undirstaða þeirra ákvarðana sem við tökum. Þess vegna opnuðum við t.d. vefinn tekjusagan.is af því að það skiptir máli að sjá raunverulega hvernig ráðstöfunartekjur hafa þróast. Þar komu fram mjög áhugaverð gögn um tekjur ungs fólks sem eru ekki stöðugt til umræðu hér í þessum sal, en gögnin sýndu að sá hópur hefur dregist aftur úr. Þess vegna held ég að mælikvarðarnir skipti máli. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast þeir ekki um sjálfa sig, þeir snúast ekki um tölurnar eða prósenturnar sem við ætlum ekki að borða heldur fólkið á bak við mælikvarðana. Þess vegna skiptir líka máli að þeir séu fjölbreyttir og þó að þjóðarframleiðslan sé einn af mælikvörðunum, sem og hagvöxturinn, skiptir líka máli að horfa á hvernig þjóðin metur heilsu sína andlega, t.d. hverjar væru lífslíkur við góða heilsu eins og Bryndís Haraldsdóttir nefndi áðan.

Hvað segir kosningaþátttakan okkur um samfélagið? Hvað með jafnvægið á milli vinnu og einkalífs sem t.d. hv. þm. Björn Leví Gunnarsson gerði að umtalsefni og jafnvægið þar sem hin langa vinnuvika virðist vera einkennandi á Íslandi? Ég held ekki að við séum að byrja á öfugum enda. Hins vegar eigum við að vinna hratt. Þessir vísar eru núna í samráðsgátt stjórnvalda. Þetta eru ekki sérstaklega margir mælikvarðar miðað við aðrar þjóðir. Ein hugmynd sem ég heyrði þegar ég var í sundi um daginn var hvort ekki þyrfti að vera einhver mælikvarði um það hversu hátt hlutfall af matvælum er framleitt á Íslandi og (Forseti hringir.) hversu hátt hlutfall innflutt og fá raunverulegar tölur um matarsóun á Íslandi þar sem við höfum verið að bera að okkar samfélagi tölur að utan.

Að lokum vil ég segja að ég er nokkuð (Forseti hringir.) viss um út frá orðum hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson að hitastigið í þinghúsinu er ekki hannað fyrir konur [Hlátur í þingsal.] þannig að kannski ætti hæstv. forseti að skoða það í leiðinni í tengslum við umræðu um holótt gögn.