150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þetta bar fljótt að og við tökum skamman tíma hér í meðferð þessa máls. Um samráð við þessi félög: Það var ekki haft samráð út af þessu máli. En ég er að mæla fyrir í annað sinn frumvarpi til laga um almannaheillafélög. Í aðdraganda þess máls hefur verið haft samráð við þessi félög og öll önnur félög en það snýr ekki að skráningarskyldu, niðurstaðan í því frumvarpi var að við gerðum þau ekki skráningarskyld. Það var eitt af því sem var skoðað á sínum tíma.

Um fjölda þessara félaga: Það falla tæplega 300 félög undir þessa skilgreiningu af yfir 10.000 skráðum félögum í landinu öllu.