150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:55]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um það er enginn ágreiningur að ég vil hafa réttlátt kerfi og gagnsætt og allt það. Ég er ekki þess umkominn að taka einhverja afstöðu um það hverjir gerðu rangt í þessu máli. Ég mun aldrei taka þátt í því að þetta mál sé tekið úr höndum dómsvaldsins þar sem það á heima og það að afturkalla greinargerðina — ég skil það sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Ef vafi er einhvers staðar í núgildandi lögum eða óvissa um bótarétt aðstandenda eða eitthvað því um líkt þá skil ég það, þá er þetta rökrétt. En ég segi: Mín skoðun er sú að hér séu slíkar bótakröfur uppi að ég tel ekki annað fært, og langeðlilegast, en að dómstólar skeri úr um það. En ég gæti skilið frumvarp sem gæti þá tryggt bótaréttinn út af fyrir sig úr því að málið er komið í þann farveg. Það var Hæstiréttur sem sýknaði, krafan var um sýknu. Það er bara veruleiki sem við verðum að sætta okkur við. Þannig er staða málsins núna. Ég vil ekki taka þetta meira frá dómstólum en þegar hefur verið gert og ekki taka afstöðu til þess hvort einhverjir lögreglumenn eða dómarar í gamla daga hafi misfarið með vald. Við vitum það ekki. Það er ekkert sem bendir til þess. Ég tek ekki umræðuna þangað. En ég vil að þetta mál verði útkljáð og ég vil auðvitað að ríkið geri sínar ýtrustu kröfur. Það útilokar ekki að það sé tilbúið til samninga á eðlilegum grunni.