150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

vindorka og vindorkuver.

[15:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það er gleðilegt að við getum farið að ræða orkumál á jákvæðari nótum en við höfum þurft að venjast síðustu mánuði. Áðan var spurt hvers vegna við nýttum ekki vindorku meira. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Ein er sú að hún hefur einfaldlega verið mjög dýr þar til tiltölulega nýlega, en kostnaðurinn við það að framleiða rafmagn með vindorku hefur lækkað gríðarlega síðustu ár og er þetta eitt af stærstu sóknartækifærunum þegar kemur að orkuskiptum, að skipta úr óumhverfisvænum orkugjöfum yfir í umhverfisvæna.

Hinn kosturinn sem er líka í gríðarlegri uppsveiflu á heimsmælikvarða er sólarorka. Eins og kannski hv. þingmenn þekkja er það ekki endilega fýsilegasti kosturinn á Íslandi sökum staðsetningar þess á plánetunni okkar, en vindorkan hlýtur hins vegar að eiga hér mjög ríkulegan sess. Hin ástæðan fyrir því að við höfum ekki nýtt vindorku jafn mikið og við myndum vilja er auðvitað sú að stjórnsýslan hefur ekki verið viðbúin því, myndi ég segja, eða þannig túlka ég það efni sem ég hef komist í hingað til um það. Það er jákvætt að heyra samhljóminn frá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra í því hvernig næstu skref beri að taka um það.

Mér þætti satt best að segja áhugavert að taka aðra svona umræðu þegar fyrir liggja niðurstöður ráðuneytanna þriggja sem skila núna um áramótin samkvæmt áætlun, ef ég skil rétt, og sér í lagi þá auðvitað að sjá hvaða þingmál munu koma í kjölfarið sem ég geri ráð fyrir að sé þörf á. Ég hef heyrt út undan mér að það sé meira að segja ekki alveg sameiginlegur skilningur allra á því nákvæmlega hvernig lagabókstafurinn í kringum þetta sé sem eitt og sér flækir mál og þá er erfitt og hægfara að fara í viðamikið verkefni ef stjórnsýslan og lagaumhverfið gerir ekki ráð fyrir þeirri starfsemi.

Það verður mjög gleðilegt að sjá þetta vonandi breytast á næstu misserum. Einnig fagna ég samstöðunni sem ég sé í umræðunni á því að nýta þennan kost meira en við höfum gert til þessa.