150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

vindorka og vindorkuver.

[16:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að hefja máls á þessu málefni.

Fjárfestar fara mikinn á Íslandi um þessar mundir og hver áætlunin á fætur annarri skýtur upp kollinum um vindmyllugarða þar sem beisla á sem mest af þeirri orku sem landið okkar fagra eða vindurinn hefur upp á að bjóða. Síðast voru u.þ.b. 27 vindmyllur sem setja á upp í landi Sólheima í Laxárdal og eiga lægstu myllurnar að tróna 150 metra upp í loft, þ.e. rúmlega tvo Hallgrímskirkjuturna. Þær vindmyllur bætast þá við þær 59 vindmyllur sem fyrirhugað er að rísi í Garpsdal og á Hróðnýjarstöðum.

Íslendingar eru óvanir vindmyllum nema þá frá útlöndum, enda hefur ekki farið mikið fyrir þeim á Íslandi nema sem hluti af tilraunaverkefnum. Sú staðreynd að nú eru 86 vindmyllur í pípunum kann að vekja furðu og margur veltir því eflaust fyrir sér hvers vegna þessi mikli áhugi hafi vaknað sem aldrei fyrr. Þá kemur hinn snjalli fjárfestir við sögu, hvernig hann tengir saman pólitíkina á Íslandi og fjárfestingarmöguleika og fær út mikinn hagnað.

Markmiðið með fjárfestingum er að þær séu arðbærar og skili sem mestum hagnaði til fjármagnseigenda. Vissulega eru margar leiðir til að ná því markmiði, veita örugg lán, kaupa frambærileg fyrirtæki eða fjárfesta í innviðum landa eins og orkuauðlindum. Kosturinn við orkuauðlindirnar er hins vegar að þær eru örugg fjárfesting.

Hæstv. forseti. Þá verður að taka með í reikninginn að á Íslandi hefur orkuverð alla tíð verið nokkuð lágt í samanburði við önnur lönd og því hefur ekki reynst ábatasamt að fjárfesta í orkuframleiðslu hér á landi þar sem virkjanir og vindmyllur eru dýrar og því tekur langan tíma að greiða þau lán upp og fá upp í kostnað en fjárfestar fara nú af stað (Forseti hringir.) og sjá sennilega mikla hagnaðarvon í þessu í framtíðinni.