150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

vindorka og vindorkuver.

[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að útvíkka málið aðeins. Við ræðum við vindorku og endurnýjanlega orkuframleiðslu. Það er einn vinkill í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem er stærsta baráttan sem við höfum staðið frammi fyrir nokkurn tímann og vonandi sú stærsta sem við munum nokkurn tímann standa frammi fyrir vegna þess að ef hún verður miklu stærri en þetta er framtíðin ekki björt fyrir mannkynið.

Hér og þar eru vonarglætur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þar á meðal einmitt uppgangur og vöxtur í framleiðslu á hreinum orkugjöfum eins og vind- og sólarorku. Aftur á móti er tvennt annað sem kemst ekki alveg jafn mikið að, annars vegar rafmagnstengingar. Eins og fólk þekkir á Vestfjörðum er oft talað um að það þurfi meiri orku og hana þarf líka að flytja á sinn stað. Hitt er síðan, þar sem hnífurinn stendur í kúnni og er stóra vandamálið, geymsla orku.

Ein aðferð er í stöðugri þróun og eru núna komnar svolítið góðar fréttir, það er vetnisframleiðsla. Hún hefur þann galla að það kostar óskaplega mikla orku að búa það til. Maður fær ekki sömu orkuna úr vetninu og maður setur í það. Þetta er smátt og smátt að skána og eru komnar miklar fjárfestingar í iðnaðinn við að þróa þá tækni. Þegar því tvennu er blandað saman, vetnisframleiðslu sem er búin til úr vatni og orku og býr ekki til neinn koltvísýring, og hins vegar rafmagnsframleiðslu erum við komin á nokkuð græna grein þegar kemur að því að knýja farartæki sérstaklega og vélar sem við getum ekki með góðu móti notað rafmagn í, segjum flutningaskip eða flugvélar.

Það er allt saman eitthvað sem er í framþróun þegar kemur að orkuframleiðslu. Áðan var spurt hvort við þyrftum meiri orku (Forseti hringir.) og svarið er: Já, við þurfum miklu meiri orku, við þurfum ofboðslega mikla orku, ekki bara til að knýja rafmagnið heima hjá okkur heldur líka til að búa til aðra orkugjafa sem við getum notað til að kljást við enn þá stærri vandamál en einfaldlega rafmagnið heima hjá okkur.