150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að vera mikið í andsvörum en tel mig þó knúinn til þess í fyrsta lagi til að koma því á framfæri að það er auðvitað ekki hægt að tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði, að hér sé um aðför að félagafrelsi á Íslandi að ræða. Hér er ekki verið að banna félög. Hér er ekki verið að banna einstaklingum að stofna félög á neinn hátt. Allt tal um að það sé verið að ganga gegn félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er rangt, villandi málflutningur sem kannski þjónar einhverjum pólitískum tilgangi sem er ofar mínum skilningi.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að öll þessi félög, og í rauninni 15.000 í viðbót, eru þegar á skrá hjá ríkisskattstjóra. Af hverju? Jú, vegna þess að til að geta stundað starfsemi sem krefst þess að eiga bankaviðskipti þá verða menn að skrá félagið til að fá kennitölu hjá ríkisskattstjóra og geta opnað reikninga. Það er ekki hægt að eiga bankaviðskipti á Íslandi án þess að á bak við reikninginn sé kennitala og kennitölu fá félög ekki nema skrá sig og fylla út ákveðnar upplýsingar hjá ríkisskattstjóra, m.a. um tilgang félagsins, hverjir bera ábyrgð á félaginu o.s.frv. Engum hefur dottið í hug, engum, að það sé einhver sérstök skerðing á félagafrelsi á Íslandi. Það eina sem er verið að gera er að fá heildaryfirsýn yfir þau félög sem stunda starfsemi yfir landamæri. Þau þurfa að skila inn ítarlegri upplýsingum en þau gera í dag. Það er nú allur galdurinn.