150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hélt því fram í ræðu sinni að hér væri verið að ganga gegn félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og ég er bara að benda á að svo er ekki. Það er rangt. Auðvitað er um íþyngjandi ákvæði að ræða. Við erum að setja íþyngjandi ákvæði, t.d. að öll félagasamtök séu skattskyld. Það er íþyngjandi en það gengur ekki gegn félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, guð minn almáttugur. Við erum að bregðast við óvenjulegum aðstæðum og ég hef grun um að þessi samtök, FATF, undrist það hvernig Alþingi og íslensk stjórnvöld hafa náð á alveg ótrúlega skömmum tíma að bregðast við mjög alvarlegum athugasemdum þannig að af yfir 50 atriðum, sem mörg hver voru mjög alvarleg, standa aðeins sex út af núna. Vonandi höfum við burði til þess hér á eftir að haka við tvö í viðbót. Það trúir því enginn að Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld hafi svona burði eins og við höfum sýnt. Það á auðvitað að hrósa stjórnsýslunni og það á að hrósa Alþingi Íslendinga fyrir að hafa brugðist hratt og vel við þeim alvarlegu athugasemdum sem gerðar voru af FATF á síðasta ári. Við eigum að hafa sjálfstraust til að gera slíkt.