150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

upphæð örorkulífeyris.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins var haldinn 4.–5. október og þar var ályktað um kjör örorkulífeyrisþega. Þar segir, með leyfi forseta:

„Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó að forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk um að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.“

Í ályktun Öryrkjabandalagsins kemur einnig fram að frá 2008 hafi leiðir lágmarkslauna og örorkulífeyris skilið. Nú munar 70.000 kr. á mánuði á lágmarkslaunum og lífeyri. Eftir næstu launahækkanir stefnir í að munurinn fari upp í 86.000 kr. á mánuði.

Ég spyr ráðherra: Hvernig í ósköpunum getur hann og hans ríkisstjórn reiknað það út að öryrkjar þurfi þetta miklu minna til framfærslu en láglaunafólk? Og hvers vegna í ósköpunum þurfa þeir líka minna en atvinnulausir? Er það eitthvað í fari öryrkja sem gerir að verkum að þeir eigi að fá þetta miklu lægri framfærslu? Er það vegna þess að þeir þurfa að borða minna, þurfa að fá færri lyf eða ódýrari? Hvað veldur því að kerfið er sett upp eins og öryrkjar þurfi mun minna til framfærslu en láglaunafólk?