150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

uppsagnir bankastarfsmanna og nýbygging Landsbankans.

[10:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir útúrsnúninginn. Það kemur málinu ekkert við að ég hafi talað um að ríkið seldi hlut sinn í Arion banka á undirverði. Ég spurði að því hér og þingheimur tók eftir því hvort þetta væri forsvaranleg framkvæmd upp á 17.000 fermetra. Það að verið sé að fækka fermetrum, eins og hæstv. ráðherra segir, eru bara útúrsnúningar. Málið snýst einfaldlega um það að samdráttur er í þessum geira. Á meðan stendur Landsbankinn fyrir stórframkvæmd upp á milljarða sem hefði verið hægt að nýta í t.d. samgönguverkefni.

Ég lagði fram fyrirspurn í mars á þessu ári til hæstv. fjármálaráðherra um fyrirhugaða byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Þetta er fyrirspurn til skriflegs svars upp á 11 spurningar. Þar spyr ég m.a. um markaðsvirði lóðarinnar, hvort byggingin sé skynsamleg og hvort til greina komi af hálfu ráðherra að falla frá umræddum byggingaráformum og selja lóðina. Það eru komnir sjö mánuðir, hvenær ætlar hæstv. ráðherra að svara þessari fyrirspurn?