150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[13:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði áðan, það er margt mjög áhugavert í þingsályktunartillögu ráðherrans. Ég naut þess að fara yfir hana með sveitarstjórnarfólki í síðustu viku. Það kom í ljós á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga að þingsályktunartillagan nýtur víðtæks stuðnings. Það liggur fyrir. Hér kennir líka margra grasa sem er áhugavert að skoða, ekki síst fyrir mig sem gamlan bæjarstjóra. Ég var bæjarstjóri í sveitarfélagi sem nú hefur sameinast öðru sveitarfélagi. Þegar maður hugsar til baka getur verið að ómeðvitað hafi kannski fyrstu skrefin verið tekin með því að hefja samstarf sveitarfélaganna sem tókst afar vel. Það hefur jafnvel verið sú gulrót sem þurfti til þess að til víðtækara samstarfs væri gengið. Þar varð samruni á frjálsum markaði, ef við getum orðað það svo. Sveitarfélögin sjálf tóku þá ákvörðun að ræða saman. Það er ánægjulegt að segja frá því að í Suðurnesjabæ hefur tekist afar vel til og þar heyrist varla nokkur mótbára við þá sameiningu sem þar varð fyrir rúmu ári þrátt fyrir nokkra andstöðu við þá í upphafi eins og gengur og gerist. Ég held að það sé eðlilegt. Maður finnur oft í þinginu að við mjög mörg mál er andstaða vegna þess eins að fólk er hrætt við óvissuna og það sem ekki er fyrirsjáanlegt.

Ég ætla ekki að lengja þennan fundartíma mikið en í stuttu máli er markmið sameininga sveitarfélaga fyrst og fremst að styrkja þá stofnun sem sveitarstjórnin er og það verður ekki endilega gert með því að lesa allt út úr excel-skjölum, sjá hver hagnaðurinn verður og hversu mikið verður eftir um hver áramót og skilar sér í kassann. Þetta er langtímaverkefni. Sameining sveitarfélaga er langhlaup þar sem árangurinn skilar sér mörgum árum eftir að ákvörðun liggur fyrir og sameiningin verður. Ég hygg að það séu þær sameiningar sem hafi tekist hvað best, þar sem þetta er látið ganga lipurlega fyrir sig, fólki ekki sagt upp störfum heldur á sér stað eðlileg endurnýjun í starfsmannahaldi með tíð og tíma og þá er ekki ráðið í störf aftur sem eiga að falla á milli skips og bryggju.

Nefndin mun væntanlega skoða ákvæðin í þessari þingsályktunartillögu um fjölda íbúa þegar hún fær tillöguna til umfjöllunar. En það liggur alveg fyrir að bættar samgöngur eru það súrefni sem þarf í svona vinnu. Þær eru oft og tíðum mikilvægasti þátturinn hjá sveitarfélögunum. Ég heyrði í kjördæmavikunni í mínu kjördæmi mjög kallað eftir samgöngubótum tengivega og landvega sem við hæstv. ráðherra þekkjum báðir mjög vel. Þrátt fyrir það eru uppi stórar hugmyndir um sameiningu á Suðurlandi. Nú þegar hefur verið upplýst að Sveitarfélagið Árborg ætlar að hafa forgöngu um að kalla til öll sveitarfélögin í Árnessýslu og ræða við þau um sameiningu í eitt sveitarfélag. Það er gríðarlega stórt og mikið mál og verður áhugavert að fylgjast með því hvernig sveitarfélögin taka á því máli og hvort þau muni koma öll að því borði. Það verður tekið eftir því.

Ég heyri líka að í Rangárvallasýslu er jákvæðni gagnvart því að skoða frekari sameiningar þar. Ég veit að Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur hafa verið að skoða það og þar austur um, til Hornafjarðar. Þetta eru allt hlutir sem hafa verið að gerast án sérstakrar löggjafar eða þingsályktunartillögu þar um. Þess vegna er mjög mikilvægt að í meðförum þingsins verði þessi mál skoðuð nánar og þegar þingið lýkur skoðun sinni ríkir vonandi svipuð sátt um þetta og gerir á meðal sveitarfélaganna sjálfra sem hafa kallað eftir þessari breytingu. Við vitum að þjónusta við fatlaða og aðra veika kallar á sterkari einingar til að standa vörð um hagsmuni þeirra. Í þessu plaggi er mörgum spurningum svarað og hugmyndir settar fram um hvernig verkaskipting ríkis og sveitarfélaga geti verið.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, í þessu plaggi er margt ágætt og jákvætt. Ég reikna með því að umhverfis- og samgöngunefnd taki málið og fínpússi eins og nefndum er gjarnt að gera. Þegar upp er staðið sjáum við kannski niðurstöður sem fleirum hugnast og við verðum sátt með.