150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki hef ég nú tölfræði um það. Ég held að enginn hafi það í raun og veru. Skilnaðir ganga oftast — ekki alltaf, kannski oftast, ég veit það svo sem ekki — ekki áfallalaust fyrir sig. Það eru miklar tilfinningar. Það er hiti. Það hefur eitthvað gengið á. Það getur auðvitað verið hatur eftir slíkt. Samskipti hjónanna fyrrverandi geta verið erfið þar af leiðandi og barn lendir inn á milli. Þetta er bara veruleiki og þetta er bara hluti af lífinu. Lítið við því að gera. En þessar skyldur gagnvart barninu hverfa aldrei, þrátt fyrir ágreining, þrátt fyrir reiðina, þrátt fyrir hefndina o.s.frv. Fólk verður bara að skynja það, þó að maður geti alveg skilið reiði þess. En vandinn í kringum flest þessi mál er sá að því er haldið fram að viðkomandi foreldri sé ekki hæft til að vera með barnið eitt. Af ýmsum ástæðum, það getur verið tengt ofbeldisásökunum eða einhverju slíku. En það liggur ekkert fyrir. Það er engin ofbeldisferill, það er engin kæra, það er ekkert. Það er bara fullyrðing annars foreldrisins. Andstæðingar þessa frumvarps hafa haldið því fram að það eigi bara að vera þannig. Það ljúgi slíku enginn og barnið eigi að njóta vafans. Þarna erum við komin í frumskógarlögmál. Það getur ekkert réttarríki unað við slíkt. Barnið á þennan rétt, það er verið að brjóta gegn því. Ef ekkert bendir til neins, engin saga um brot, ofbeldi eða neins konar vanrækslu, verður barnið að fá að umgangast hitt foreldrið og á rétt á því. Það er lykilatriði í þessu.