150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er sannarlega þakklát fyrir þær góðu undirtektir sem umræðan hefur fengið hér. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra ásamt öllum öðrum og það sést að hjörtu okkar slá í takt. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með samtalið við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég kem með þrjá punkta og gef henni faktískt fríspil á það hvernig hún ákveður að túlka það, hvort sem það er í sambandi við sjálf efnin, biðlistana eða dauðsföllin. Ég hélt allan tímann að lægi í hlutarins eðli að maður vildi sjá hvað væri að gerast, hvað væri á borði heilbrigðisráðherra, forvarnir og annað slíkt. Öll þessi mál höfum við rætt áður, það er alveg á hreinu. Staðreyndin er sú að það er 700 manna biðlisti núna inn á Vog. Þar eru nákvæmlega sömu afköst og voru áður. Samt hefur fjölgað um 100 einstaklinga á þessum nákvæmlega sama biðlista. Ég er eingöngu að tala um þessa meðferðarstofnun sem hefur sýnt á alþjóðavísu að hún hefur náð stórkostlegum árangri og mig langar að benda hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur á að það er hægt að finna tölulegar upplýsingar um mælanleika þó að hún hafi beint fyrirspurninni til ráðherra.

Staðreyndin er sú að við erum á leiðinni niður brekkuna. Ég finn það. Ég reyndi áðan að tala eins og við værum ekki í einhverri pólitík. Svörin sem ég fékk voru rosalega kerfislæg um einhver prósent. Ég er aðallega að horfa á hinn gríðarlega vanda og stóru verkefnin sem ég tel að við í sameiningu getum tekið utan um. Ég óska eftir því að við stígum út fyrir boxið og viðurkennum vandann af öllu hjarta og göngum í það algjörlega markvisst að vinna á vandanum og koma til móts við þá sem virkilega þurfa á hjálpinni að halda. Hvort sem það er fjölskyldulegt, samfélagslegt, félagslegt eða sálfræðilegt, eins og við vitum, mikill geðvandi og annað slíkt, er staðreyndin sú að þetta er heilbrigðismál. Það er til staðar, þessi vandi er hér og okkar er að leysa hann.