150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nota tækifærið og ræða um sorpmál og tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Mér er mjög annt um sveitarfélögin og ég átta mig á því að þau sinna gríðarlega mikilvægri nærþjónustu við íbúa í þessu landi. En í mínum huga er úrgangsstjórnun hreinlega ekki nærþjónusta og horfa þarf á hana yfir landið allt. Því miður hefur okkur ekki tekist það enn. Sveitarfélögin sinna þessu í sínum byggðasamlögum og allt of mikill tími virðist fara í það milli sveitarfélaga að rífast um hvar eigi að koma næstu brennslustöð eða næstu urðunarstöð fyrir eða hvar gas- og jarðgerðarstöð eigi að vera.

Á fundi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í morgun ræddum við um urðunarskattinn og fengum til okkar gesti, bæði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sorpu. Allir geta lesið þær umsagnir sem borist hafa um urðunarskattinn og þær eru því miður ekki jákvæðar. Það er kannski ekki miður, það er alltaf mjög gott að fólk hafi miklar skoðanir á því þegar við tölum um skatta, það á ekki að vera auðvelt að hækka skatta eða leggja á nýja skatta og mjög gott að fólk sé vakandi yfir því. En þarna held ég að við þurfum aðeins að fara að huga að útfærslunni. Hugmyndafræðin á bak við urðunarskatt er sú að við hættum að urða eða að urðun minnki eins mikið og mögulegt er. Hugmyndin gengur út á það að þeir borgi sem menga. En við þurfum þá að geta útfært hlutina með þeim hætti að það sé raunverulega þannig. Því miður höfum við ekki þau tæki og tól í dag, að mér sýnist, til að útfæra þetta með þeim hætti.

Ég hef reyndar nokkrum sinnum velt því fyrir mér í þessum ræðustól hvort ekki sé tímabært að ríkið taki yfir úrgangsstjórnunina. Það er nærþjónusta að sjá um sorphirðu og það eiga sveitarfélögin að sjálfsögðu að gera með því að bjóða þá þjónustu út, einkaaðilar sinna henni meira og minna á flestum stöðum fyrir utan Reykjavík. En horfa á heildstætt og yfir landið allt á það hvernig við endurvinnum efni og hvort við setjum það í brennslu, urðun eða gas- og jarðgerð.