150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[14:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir ræðu hv. þingmanns líður mér svolítið eins og ég hafi eyðilagt jólin. Ég áttaði mig ekki alveg á því hversu mikil hátíðarstund þetta væri. En úr því að hv. þingmaður vísar til þess skulum við bara halda því þar. Ég ætla ekkert að pína hv. þingmann með þessari spurningu lengur. Við skulum bara taka þessu eins og það er og halda okkur við tilefnið, það er alveg hárrétt, og ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir skýrslubeiðnina. Ég er sammála honum um að hún er góður grunnur til þess að ræða þessi mikilvægu mál. Þó við séum ekki sammála um öll mál — og ég ætla ekki að rekja það til að eyðileggja nú ekki hátíðarstundina — vona ég að í framhaldinu förum við að ræða hvernig við getum bæði byggt upp það fyrirkomulag sem tryggir að hagsmunagæslan sé í sem bestu lagi og hvernig m.a. (Forseti hringir.) við getum rætt þessa hluti sem skipta máli, sérstaklega á fyrstu stigum. Það þýðir að við munum öll gera hvað við getum til þess að taka á móti þegar á þarf að halda því að þess mun þurfa í þessu samstarfi eins og öllu öðru.