150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu hans og ég er sammála mörgu sem þar kom fram. Ég vonaðist til þess að þingmaður myndi lýsa því yfir að við ættum að geta náð sátt um það í íslenskum stjórnmálum að standa vörð um EES-samstarfið en ekki að vera að takast á um það, eins og við höfum gert, hvort fara eigi inn í Evrópusambandið, en mér varð ekki að ósk minni.

Ég spyr hv. þingmann fyrst, úr því að hann fór inn á þær brautir, um mikilvægi þess að fara í Evrópusambandið, hvort hv. þingmaður hafi einhverjar áhyggjur í þessu sambandi. Nú er það svo að við getum ekki gert ráð fyrir að alltaf verði uppgangur í íslensku samfélagi. Við fundum harkalega fyrir því í alþjóðlega fjármálahruninu hvernig það lék okkur. Ég held að flestir, ef ekki allir, séu sammála um að þá var gott fyrir okkur að eiga okkar eigin gjaldmiðil sem hjálpaði okkur mjög í því. Ef það hefði ekki verið hefðum við örugglega séð mun meira atvinnuleysi en raun varð á og var það nú samt nægt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Sömuleiðis erum við svo lánsöm í EES-samstarfinu að við erum með okkar eigin viðskiptamál og við þurfum ekki að borga þann dýra aðgangseyri sem er í Evrópusambandið og sömuleiðis þurfum við ekki að taka þátt í sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni og landbúnaðarstefnunni svo eitthvað sé nefnt. Er eitthvað sem hv. þingmaður hefði áhyggjur af í því sem ég nefndi sem myndi óhjákvæmilega felast í því að fara í Evrópusambandið?