150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Eins og þingmaðurinn fór yfir er það unga fólkið sem við bindum auðvitað vonir við að sjái hag sinn í því að velja sér búsetu á Íslandi og á þeim grunni sem þetta samstarf gefur okkur getum við tryggt það enn frekar. En það er gríðarlega mikilvægt að við höldum jafnframt vel á spilunum varðandi innleiðingar, að við stöndum alltaf vörð og pössum upp á hagsmuni okkar þegar við innleiðum gerðirnar og að við fylgjumst vel með strax frá upphafi hvað er í pípunum og að við setjum kannski aðeins meiri kraft í það. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það áhersluatriði sem hæstv. utanríkisráðherra hefur talað mikið fyrir verði ofarlega á baugi á næstu árum.

Mig langar í lokin að varpa einni spurningu til hv. þingmanns um neytendavernd. Vera okkar í EES hefur auðvitað haft gríðarlega mikil áhrif á neytendur og í raun orðið umbylting á íslenskri löggjöf varðandi neytendavernd frá því að við gengum í sambandið, nei, í EES, og við erum ekki búin með það. Það mun áfram vera þungi á neytendavernd. Sú umræða hefur aðeins skapast hér í öðrum málum sem tengjast neytendavernd og EES-samningnum að við gætum bara alveg gert þetta sjálf. En það hefði kannski orðið þyngra í vöfum að innleiða alla þá réttarvernd sem íslenskir neytendur hafa hlotið í kjölfar aðildar okkar að EES-samningnum en ella. Ég held að þetta sé svolítið grunnurinn að því sem hv. þingmaður var að tala um, að íslenskt samfélag sé samkeppnishæft í augum ungs fólks sem er að velja sér búsetu.