Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[17:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að leggja áherslu á þetta. Ég var óhrædd við að halda því fram að þetta væru helstu tíðindin í skýrslu starfshópsins um EES-samninginn en ég verð að játa að ég er ekki sjálf búin að taka ákvörðun um það hvor leiðin sé færari. Ég held samt sem áður að þessi 18 opinberu lögfræðiálit sem ég vísaði í hafi í raun hverfst um akkúrat að þessi atriði geti legið til grundvallar þeirri umræðu og þeirri vinnu við stjórnarskrána sem er í gangi. Ég held að þetta sé samt sem áður það mikilvægt að við þurfum að eiga um það virkar samræður hvora leiðin við eigum að fara. Það verður forvitnilegt að sjá framhaldið og hvort og þá hvernig þessi úrbótapunktur muni rata í vinnu um breytingar á stjórnarskránni sem nú er yfirstandandi. Ég held að það geti verið ágætisnesti inn í þá vinnu.