150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég er enn í þeirri stöðu að vera að læra á þennan ágæta vinnustað, Alþingi. Nú er í fréttum málefni tveggja systra sem eru að berjast við kerfið og fornaldarlega mannanafnalöggjöf okkar. Ekki fá þær að ráða eigin örlögum svo að þeim heimilist að skipta um nafn sem er það litla sem þær biðja um. Hæstv. dómsmálaráðherra boðar að nú skuli koma nýtt mannanafnalagafrumvarp þar sem frelsið skuli haft í forgrunni. Ég óska henni alls hins besta með málið en minni á að tíu af hennar eigin flokksfélögum kolfelldu slíkt mál í þinginu í vor ásamt öllum hinum frelsisunnandi þingmönnum Miðflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna sem gátu alls ekki hugsað sér að einstaklingar fengju að ráða eigin nafni.

Mér þykir mjög sérstakt að við séum enn virkilega með þá stöðu að við þurfum sérstaka mannanafnanefnd til að ákvarða hvaða nöfnum fólk megi heita, að við treystum ekki einstaklingum til að skíra börn sín og hvað þá að breyta eigin nafni að eigin ósk. Mér þykir enn fyndnara í raun að horfa upp á þessi vinnubrögð þar sem ríkisstjórn sem stóð að því að kolfella þetta mál í vor og tók engan þátt í störfum nefndarinnar til að breyta málinu með þeim hætti að það væri viðkomandi flokkum að skapi ætlar að færa sama mál upp á borð Alþingis aftur. Á tungumáli vinnandi fólks sem vinnur heiðvirða vinnu heitir þetta sóun á tíma þingsins. Þetta heitir barnaskapur, þetta heitir að það skipti öllu máli hvaðan hlutirnir koma en ekki hvernig þeir hljóma. Ég vona sannarlega að ég upplifi að þingið láti af slíkum vinnubrögðum og að við tökum einfaldlega góðar hugmyndir, vinnum þær áfram (Forseti hringir.) og klárum þær hér í sameiningu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)