150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta frumvarp gengur kannski ekki eins langt og ég hefði sjálf viljað gera. Það er bara eins og það er. En það hefur ákveðin áhrif. Ef hv. þingmaður skoðar t.d. 3. gr. er ekki skylt að greiða heildarlántökukostnað láns. Ég tek undir að mér finnst að Fjármálaeftirlitið eigi að vera með utanumhaldið á þessu og hef haft þá skoðun frá því að ég byrjaði að tala um slík lán. Ég veit ekki varðandi Neytendastofu. Eins og hv. þingmaður bendir á hefur henni verið neitað um svör þegar hún hefur óskað eftir upplýsingum. Núna er þetta mjög skýr lagaskylda, það ber að svara. Ég veit ekki hvort Fjármálaeftirlitið stendur eitthvað betur ef smálánafyrirtækin koma sér undan því að svara. Af hverju ættu þau að svara Fjármálaeftirlitinu frekar en Neytendastofu? Ég veit því ekki alveg hvort það sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. En ég tel að þetta eigi að lúta sömu lögmálum og önnur fjármálastarfsemi á markaði.

Varðandi hlutfallstölukostnað treysti ég því sem ráðherra opnaði á áðan þegar hann sagði að nefndin gæti tekið það til umfjöllunar að lækka hann. Mér finnst hann allt of hár, 50%. Mér finnst það allt of hátt og hef ekkert dregið dul á það og hef sagt það í ræðum áður, þannig að ég treysti því að við lögum það mál eins vel og við getum.

Ráðherrann svaraði því líka ágætlega áðan að það eru hlutir sem heyra ekki undir ráðuneyti hennar sem við þurfum að laga og Neytendasamtökin hafa verið að benda á og ég sagði að kannski hefði verið best ef það hefði komið bandormur um þetta mál í heild sinni. Þá hefðum við mögulega náð frekar utan um það í einu og sama málinu.