150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil byrja á okurvöxtunum. Eins og smálánin akta höfum við talað um þau sem okurvaxtalán og við þurfum að breyta því. Þess vegna talaði ég um það, og ráðherra opnað á það líka, að við þyrftum að breyta þessum viðmiðum og ég held að þingið eigi að taka það í fangið og gera það, horfa kannski til Finnlands eða þangað sem náðst hefur utan um þetta skilmerkilega.

Varðandi starfsleyfisskyldu og hvort smálánafyrirtæki eigi að vera eins og hver annar banki þá fór ráðherrann líka ágætlega yfir það. Það eru auðvitað áhöld um hvort það gengi eftir. Þá værum við í rauninni kannski ekki að tala um smálánafyrirtæki lengur heldur bankastarfsemi. Það er allt annars konar umhverfi en þessi fyrirtæki hafa verið að starfa í. Ég tek líka undir það, og þess vegna hef ég haldið þessu með Fjármálaeftirlitið til haga því að Neytendastofa getur bara ávítað og lagt á sektir og eitthvað slíkt, vissulega, eins og ég vitnaði til í ræðu minni. Ég þarf kannski ekkert að ítreka það að ég myndi ekki vilja hafa þessa starfsemi hér á landi, svo það sé nú bara gefið einfalt svar við því, en ég held að við stöndum frammi fyrir því að við útilokum hana ekki og þurfum að reyna að ná utan um hana. Ég veit ekki hvort það sem við hv. þingmaður erum að velta hér upp sé hægt, að gera starfsemina leyfisskylda. Það eru áhöld um það, eins og kom fram í ræðu ráðherra, hvort það er vel fær leið. Ég myndi vilja það ef við gætum gert það og tekið bankaskatt og gert nákvæmlega það sama og við gerum við önnur fjármálafyrirtæki ef þess væri kostur.