150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:58]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ágætt frumvarp. Ég er með spurningu um eftirlitið. Ég veit að Landgræðslan hefur knappt svigrúm og ég veit að löggæslan um allt land á fullt í fangi með að sinna verkefnum sínum. Í flestum sveitarfélögum eru lögreglusamþykktir þess efnis að ekki megi henda rusli eða úrgangi á almannafæri innan sveitarfélagsins. En ég veit ekki til þess að það komi inn tekjur til sveitarfélagsins einmitt út af slíkum brotum. Ég held að þau séu látin dálítið átölulaus og séu ekki í forgangi hjá lögreglumönnum. Ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki frekar að fókusera á meðvitund fólks og að þetta sé eitthvað sem við þurfum að vera meðvituð um. Ég hefði haldið að það væri almenn skynsemi og alið upp í flestum Íslendingum að ganga vel um og vera ekki að henda rusli nema á þar til merktum stöðum. Ég tel að eftirlitið vanti og mér er mjög illa við að setja reglur þar sem ekki fylgir eftirlit. Ef reglunum fylgir ekki nægilegt eftirlit er afstaða mín yfirleitt sú að við getum alveg eins sleppt því að setja reglurnar. Ég ætla því aðeins að spyrja frekar út í eftirlitið og hvort hv. þingmaður viti hver reynsla sveitarfélaganna er. Mig grunar að ekki hafi mikið verið sektað út af þessu.