150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir þetta góða mál. Ég ætlaði einmitt að snúa mér meira að réttarvörslukerfinu vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig við bregðumst oft við þegar virkilega hefur verið beitt ofbeldi. Við erum að tala um markvissa fræðslu og annað slíkt sem er nauðsynleg fyrir börnin okkar en svo er líka talað um sjálfsákvörðunarréttinn og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum. Mig langar að vísa beint í lög nr. 19/1940, í almenn hegningarlög, í 194. gr. þar sem segir, með leyfi forseta, í 1. mgr.:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.“

Við höfum nánast í hverri einustu viku heyrt sögur af viðkvæmum og vægast sagt skelfilegum málum sem koma upp, jafnvel málum þar sem níðst hefur verið á litlum börnum niður í tveggja ára eða fjögurra ára aldur, hræðileg mál. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti til þess að við höfum einhvern tíma nýtt refsirammann í raun og veru. Maður veltir fyrir sér hversu langt þurfi að ganga, í ofbeldi og í því að svipta annan einstakling sjálfræði yfir eigin líkama, til þess að þessi refsirammi verði nýttur eins og lög gera ráð fyrir. Myndi slíkt yfir höfuð hafa einhvern fælingarmátt?