150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu um markvissa fræðslu um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir hans framlag. Hann setur upp þrjá flokka: Í fyrsta lagi er það menntakerfið, öll stig þess, í öðru lagi miðlun og herferðir frjálsra félagasamtaka og fjölmiðla sem beint er að skilgreindum markhópum og í þriðja lagi réttarvörslukerfið. Ég hefði viljað fá fjórða liðinn: Alþingi, stjórnsýslan, ríkisstofnanir, ráðuneyti. Það er ekki nema ár síðan við urðum vitni að ótrúlegri uppákomu og þess vegna veitti ekkert af að hafa fræðslu innan stjórnkerfisins og Alþingis líka. Við eigum ekkert að vera undanþegin því að fá fræðslu í þessum mikilvæga málaflokki.

Síðan er það annað sem ég sé. Ég fór í gegnum þetta allt saman og hvergi kemur sérstaklega fram að einn viðkvæmasti hópur einstaklinga sem verður fyrir kynferðislegri áreitni eru fatlaðir. Þar undir er samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra. Hann er að vísu ekki nefndur en ég geri mér grein fyrir því að átt er við þennan hóp líka. Þetta er einn af þeim viðkvæmu hópum sem þarf sérstaklega að huga að og hann hefur því miður farið mjög illa út úr þessum málum og ekki verið varinn eins og ætti að vera. Okkur ber skylda til þess vegna þess að við verðum að átta okkur á því að þetta er sá hópur sem hefur síst getu til að verja sig í þessum efnum.

Ég vil einnig benda á að fram undan, þann 8. nóvember, er dagur gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Þeim degi er ekki haldið nógu hátt á lofti og okkur ber skylda til að sjá til þess að á þessum degi sé markviss fræðsla um þessi málefni, í skólum og alls staðar í þjóðfélaginu. Gerð er krafa um að við reynum að gera þennan dag þannig að hringt verði bjöllum og klukkum, reynt að minna rækilega á hann. Það hefur einhvern veginn ekki tekist og það er eiginlega synd vegna þess að þarna er kominn dagur sem er settur upp fyrir þennan málaflokk, til þess að minna okkur á hann. Okkur veitir ekkert af að láta minna á hann og það vel. Þetta er einn af ljótustu málaflokkum mannskepnunnar og óskiljanlegur að mörgu leyti. Þess vegna þurfum við virkilega að taka hart á þessum málaflokki og auðvitað er fræðsla frá blautu barnsbeini aðalatriðið. Fræðsla og aftur fræðsla út í eitt í þeirri von að málaflokkurinn fái nægilega athygli.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta en eins og ég segi vona ég heitt og innilega að þessi málaflokkur fái alla þá athygli sem hann á skilið og að séð verði til þess að upplýsingar berist öllum.