150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir þessa ræðu. Létta, einfalda og auðvelda, segir hv. þingmaður, og hún segir að hún sé að undirbúa allt öðruvísi þingsályktunartillögu. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég og hv. þingmaður erum alls ekki í sama flokki, við lítum hlutina gjörólíkum augum. Hún talar um að það væri huggulegt að stíga í spor Norðmanna og treysta Orkustofnun. Ég treysti Landsvirkjun 100% til að framleiða allt það rafmagn sem við þurfum, svo og Landsneti 100% til að koma á því öfluga dreifikerfi sem er nú þegar í uppbyggingu. Hv. þingmaður var með mér í atvinnuveganefnd í fyrra þegar mér hlotnaðist sá heiður að vera þar varaformaður. Við heimsóttum t.d. Landsnet og sáum þau stóru markmið sem þeir eru þar með, þannig að ég mun ekki ætla að þegar upp verði staðið eigum við ekki eftir að geta státað af glæsilegu dreifikerfi raforku, hvort sem það er til Vestfjarða eða á Suðurnesin þar sem vandræðin eru eða á Norðausturlandið þar sem við erum líka með vanda. Við vitum að það er mikið í gangi hvað lýtur að því.

Þegar kemur hins vegar að þessu mati segi ég fyrir mína parta: Ég er afskaplega mikill náttúruunnandi og jafnræðissinni á margan hátt. Ég fæ ekki séð neitt að því að vindbú með 2 MW uppsettu rafafli, þar yfir, fari í umhverfismat. Alls ekki. Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir alla þessa fræðslu um hvernig þessi mál ganga fyrir sig og þau mörgu ár sem þau taka, ég hafði ekki áttað mig á því að þetta væri margra ára „prósess“. Það er eiginlega með ólíkindum að nokkrum skuli yfir höfuð láta sér detta þetta í hug. En hér er bara verið að segja að þeir sem þurfa þetta til eigin nota geti sannarlega bara reist sitt litla raforkuver við sinn sumarbústað, punktur og basta.