150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:43]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Dreifikerfið og flutningskerfið eru náttúrlega sitt hvað og það er Landsnet sem sér um flutningskerfið. Dreifikerfið er á ábyrgð Rariks og Orkubús Vestfjarða. Það er víða veikt. Það dreifikerfi sem við búum við er veikt fyrir margra hluta sakir. Við þurfum að styrkja það. Við þurfum að styrkja þrífösun rafmagns og við þurfum að styrkja kerfið þar sem það er. Það nær mjög langt og nær í margar áttir. Þar koma inn smávirkjanir til að styrkja það því að smávirkjanir koma bara inn á dreifikerfið.

Ég held að við séum bara hvor á sinni línunni með þetta, enda hvor í sínum flokknum. En ég er mikill náttúruverndarsinni. Þess vegna vil ég byggja undir þessa starfsemi fremur en að byggja kannski eitthvað á borð við Kárahnjúkavirkjun sem er svo miklu stærri og hefur svo miklu meiri og víðtækari áhrif á umhverfið. Ekki það að við þurfum ekki líka á því að halda. En þetta kerfi held ég að byggi sérstaklega undir raforkuöryggi um allt land. Síðan er líka að 400 eða 600 kW eða 2 MW virkjun er nánast ekki sýnileg þegar framkvæmdum er lokið og við erum bara að nýta það rennsli sem fyrir er en ekki að safna í uppistöðulón og pípurnar eru náttúrlega neðan jarðar. Síðan rís lítið stöðvarhús fyrir neðan sem mætti kannski halda þegar maður keyrir fram hjá að væri lítill sumarbústaður.