150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

náttúruverndarmál.

[15:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil minna okkur öll á að í desember í fyrra voru ný landgræðslulög samþykkt á Alþingi. Í þeim er kveðið á um ákveðin tæki til að takast á við það sem hv. þingmaður nefndi er lýtur að beitarmálum. Það er líka stórt verkefni í gangi sem Landgræðslan stýrir í samvinnu við bændur og heitir GróLind og snýst um að greina hversu mikið sé af ósjálfbærri beit í landinu. Samkvæmt nýjum landgræðslulögum er verið að setja skilgreiningu á það hvað sjálfbær landnýting er. Þegar við verðum komin með þau tæki í hendurnar held ég að við eigum mun auðveldara með að takast á við þau vandamál sem vissulega eru sums staðar fyrir hendi þegar kemur að beit. Þetta eru lykilatriði til að vinna að núna í framhaldinu.

Eitt af þeim tækjum sem nefnd eru í landgræðslulögum er svokölluð landbótaáætlun sem á að grípa til þegar ekki er um að ræða beit sem samræmist sjálfbærri landnýtingu. Þetta er nokkuð sem er ekki óþekkt í kerfinu eins og það er í dag en er það sem við þurfum að styrkja.

Hér er líka spurt hvort gera þurfi betur í loftslagsmálum. Ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að gera betur í loftslagsmálum alls staðar í heiminum. Mér finnst mjög sjálfsagt að svara þessari spurningu játandi. Auðvitað þurfum við að gera betur í loftslagsmálum alls staðar í heiminum og það er akkúrat það sem ríkisstjórnin er að vinna að. Hún hefur komið fram með aðgerð eftir aðgerð byggða á aðgerðaáætluninni sem við settum fram í fyrrahaust og við erum að vinna að endurskoðun hennar eins og sakir standa.