150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

fjárfestingaleið Seðlabankans.

[15:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég spyr einmitt vegna skýrslu sem Seðlabankinn gerði sjálfur um sjálfan sig og sína fjárfestingaleið en þar kemur fram að það sé ekki hlutverk Seðlabanka Íslands, með leyfi forseta, „að útdeila réttlæti í samfélaginu, með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra“. Hann viðurkennir að hann hafi ekki alls kostar haft yfirsýn yfir hvaðan þetta fjármagn kom og að þessi 2,4% tala sé mögulega ekki 100% rétt. Hann viðurkennir líka að leiðin hafi ekki gætt jafnræðis, að hún hafi stuðlað að neikvæðum áhrifum á eignaskiptingu, hafi mögulega opnað á peningaþvætti og gert óæskilegum auðmönnum kleift að flytja til Íslands falda peninga af aflandssvæðum. Þetta segir Seðlabanki Íslands sem rannsakaði sjálfan sig.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki tilefni fyrir Alþingi til að rannsaka þann sem rannsakaði sjálfan sig? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)