150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[15:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er nokkuð um þetta fjallað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, m.a. það að leita leiða til að draga úr eignarhlut ríkisins í bankakerfinu. Eins og komið hefur verið inn á áður er það svo sem ekki sagt í fyrsta sinn. Við þennan samdrátt á eignarhlut, ef við getum kallað það svo, er mikilvægt að horft sé til hagsmuna almennings í því tilliti, horft til þeirra hagsmuna sem við sem stjórnvöld eigum að verja sérstaklega gagnvart almenningi í landinu. Þá kemur að því sem hv. þingmaður nefndi um aðskilnað fjárfestingar- og einkabankaþjónustu sem ég tel mjög mikilvægan. Ég held að það sé eitt af þeim efnum sem eigi sérstaklega að horfa til í þessu tilliti.

Við verðum líka að muna að bankastarfsemi er öll að breytast. Miklar breytingar eru að verða í allri bankaþjónustu úti um allan heim og í því eru bæði tækifæri og ógnanir í þessu tilliti og mikilvægt að hafa það í huga.

Ég tek að lokum undir þann málflutning sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur m.a. viðrað í blaðagrein, að það geti verið flötur á því að horfa til þess að stofna svokallaðan grænan banka eða loftslagsbanka eins og ég held að hann hafi nefnt hugmyndina. Það gæti verið mjög spennandi kostur. Eins og hv. þingmenn þekkja eru til víða um heim svokallaðir grænir fjárfestingarsjóðir sem eru að mínu viti yfirleitt góð hugmynd og grænn banki gæti sannarlega einnig verið það.