150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera.

98. mál
[16:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera. Ég hef spurt hæstv. ráðherra áður út í stöðu þessa máls. Fyrir rúmu ári var þingsályktunartillögu sem lögð var fram af þingmönnum Viðreisnar vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra um gang mála á síðasta þingi varð fátt um svör og virtist harla lítið hafa gerst í málinu þótt ár væri þá að verða liðið frá því að ríkisstjórnin tók við því verkefni. Spurningar mínar eru alls fjórar:

Hvernig standa viðræður við aðila vinnumarkaðar og fulltrúa sveitarfélaga um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta sem vinna hjá hinu opinbera?

Til hversu margra funda hefur verið boðað með þessum aðilum til að ræða þau mál sérstaklega?

Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar um næstu skref?

Hver er niðurstaða greiningar, hafi slík greining farið fram, á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til að draga fram kynbundinn launamun hjá hinu opinbera sem samþykkt var að ráðast í á grundvelli fyrrnefndrar þingsályktunar sem var samþykkt á Alþingi 11. júní 2018?

Nú eru í gangi kjaraviðræður við heildarsamtök starfsmanna hjá hinu opinbera og nýafstaðin er mjög stór kjarasamningalota á hinum almenna vinnumarkaði. Það voru vonbrigði að horfa til þess þegar kjarasamningar voru undirritaðir á almenna vinnumarkaðnum hversu lítill gaumur var gefinn að þessu mikilvæga máli. Þótt okkur vanti betri greiningu á þessu þekkjum við auðvitað þá staðreynd að fjölmargar opinberar stéttir, áberandi kvennastéttir eins og umönnunarstéttir og kennarar, njóta ekki menntunar sinnar í launum til jafns við það sem gengur og gerist víða hjá karllægari stéttum, t.d. þegar horft er til verkfræðinga, lögfræðinga eða annarra slíkra stétta. Á það hefur verið bent árum saman að þarna sé að finna mjög mikilvægt atriði er varðar lakari kjör kvenna almennt sem birtist m.a. í því að konur njóta í lok starfsævi umtalsvert lakari lífeyrisréttinda en karlar, m.a. af kerfisbundið lægri launum í gegnum starfsævi sína.

Ég bind vonir við að ríkisstjórnin hafi metnað til að taka á þessu máli, en óska eftir upplýsingum frá hæstv. ráðherra um hvað er þá verið að gera og hvernig verið er að nýta núverandi kjarasamningalotu til að gera slíkt.