150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.

178. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hafa komið fram nokkrar ágætar spurningar og ábendingar í umræðunni eins og t.d. varðandi upplýsingaskyldu félaga í eigu hins opinbera. Ég held að við getum verið sammála um að það skipti miklu að það sé fullt gagnsæi og að rekstrarformið geti ekki ráðið úrslitum um aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að undirbyggja málefnalega umræðu og veita aðhald með opinberum rekstri sem fer fram í hlutafélagaforminu. Hins vegar getur þurft að taka tillit til viðskiptahagsmuna í einhverjum tilvikum og ég á dálítið erfitt með að sjá að það eigi erindi sérstaklega inn í eigendastefnu ákveðinna fyrirtækja að þau eigi að sýna gagnsæi í sínum störfum og sinna upplýsingaskyldu. Það finnst mér að eigi að vera í almennum lögum og vera byggt á slíku.

Við þurfum líka að ræða hvernig við ætlum að samræma svona viðauka við eigendastefnu að hinum ýmsu stefnum, eins og ég rakti aðeins í mínu máli. Ég held að við getum ekki saumað þetta allt saman og verið með of mikið af endurtekningum. Ég lét þess getið að þetta væri hugsað sem stutt og hnitmiðað viðbótarskjal sem lýsti ákveðnum megináherslum en að sjálfsögðu þyrfti að taka tillit til stefnu sem tengdist viðkomandi rekstrarsviði.

Síðan er beint til mín spurningu varðandi alþjóðaflugvellina í landinu sem við höfum áhuga á að byggja upp. Ég myndi almennt vilja vara við því að við festumst í umræðu um formið á þeim í því efni, þ.e. hvort þeirri byrði sem fylgir rekstri og uppbyggingu einstakra flugvalla í landinu sem varaflugvalla eða alþjóðaflugvalla eigi að velta inn í samkeppnisrekstrarfyrirtæki (Forseti hringir.) eins og Isavia er eða hvort við eigum að fjármagna hana með fjárheimildum frá Alþingi. Ég held að það sé langmikilvægast að við komumst fyrst að niðurstöðu um það hvar við viljum byggja upp, hvað það kostar, hversu umfangsmikla starfsemi við viljum reka. Við eigum ekki að líta undan þegar kemur að því að horfast í augu (Forseti hringir.) við kostnaðinn af þeim markmiðum og reyna að sópa honum inn í hlutafélag og vonast til að hann bara gleymist þar eða týnist. (Forseti hringir.) Það er ekkert unnið með því.