150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Könnun á rafvæðingu hafna er hluti af þeim orkuskiptum sem við vinnum nú að í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar og er gagnlegt að fara yfir stöðu þeirra mála. Ég vil leitast við að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður hefur lagt fram í þremur liðum. Í fyrsta lagi varðandi stöðu verkefna aðgerðaáætlunar um orkuskipti í íslenskum höfnum sem unnin var af Hafinu – Öndvegissetri og Íslenskri NýOrku. Í þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, frá því í maí 2017, kemur fram, í kafla um innviði, að skoðað verði hvort einhverjar hindranir komi í veg fyrir notkun raforku í höfnum. Til að fylgja þessu verkefni eftir var Hafinu – Öndvegissetri ásamt Íslenskri NýOrku falið að greina mögulegar hindranir og leggja fram tillögur um aðgerðir stjórnvalda fyrir orkuskipti í íslenskum höfnum. Skýrsla þeirra var kynnt í janúar á þessu ári. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að staða raftengingar til skipa í höfnum er nokkuð góð hér á landi þegar litið er til lágspennutenginga en hins vegar er skortur á háspennutengingum sem nauðsynlegar eru stærri skipum. Tækni er ekki hindrun fyrir raftengingar til skipa en fjármögnun innviða í höfnum er lykilþáttur sem og hvatar til skipaeigenda vegna uppsetningu búnaðar. Í skýrslunni voru lögð til fimm skilgreind verkefni sem snúa að rafvæðingu hafna.

Til að svara spurningu hv. þingmanns um stöðu þessara verkefna er sem stendur verið að vinna áfram með þau innan starfshóps fjögurra ráðuneyta. Sá starfshópur hefur það verkefni að halda utan um gerð innviðaáætlunar fyrir orkuskipti. Í því felst að greina núverandi stöðu innviða á landinu öllu og leggja til tillögur um forgangsmál og fjármögnun verkefna. Í skýrslu þess starfshóps frá maí á þessu ári er m.a. fjallað um rafvæðingu hafna og komið er inn á verkefni á því sviði. Fyrir liggur samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun að áætlað er að verja 1,5 milljörðum kr. til orkuskipta á næstu árum í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Á þessu ári verði 250 milljónum úthlutað til verkefna sem Orkusjóður auglýsti í sumar og snúa annars vegar að uppbyggingu rafhleðslustöðva og hins vegar hleðslustöðva við gististaði. Ráðgert er að á næsta ári verði 200 millj. kr. varið til margvíslegra annarra verkefna í orkuskiptum, þar með talið rafvæðingar hafna. Nánar er gerð grein fyrir þeim verkefnum í áðurnefndri skýrslu starfshóps ráðuneytanna og á vegum hans er unnið að frekari útfærslu. Starfshópurinn mun skila tillögum sínum fyrir 15. desember.

Starfshópurinn hefur hafið samstarf við Grænu orkuna, samstarfsvettvang um orkuskipti, um þetta verkefni. Með þátttöku Grænu orkunnar er horft til þess að fá fram bestu upplýsingar, bæði frá atvinnulífinu og hagsmunaaðilum, um hvaða innviði þarf fyrir orkuskipti og hvernig við náum fram sem bestri nýtingu fjármuna. Það sem ég er að reyna að segja er að við erum ekki að öllu leyti búin að skrifa það út og taka ákvörðun um í hvaða aðgerðir verður farið fyrir þá fjármuni sem við erum búin að eyrnamerkja þessu verkefni þar sem rafvæðing hafna er vissulega undir, en við erum enn þá að vinna heimavinnu okkar hvað það varðar, hver staðan er og hvað hægt er að gera.

Í öðru lagi um spurninguna hvort aðgerðaáætlunin hafi verið kostnaðarmetin þá er því til að svara að í þeirri vinnu sem stendur yfir af hálfu starfshóps ráðuneytisins sem ég nefndi og Grænu orkunnar verða þær aðgerðir sem settar hafa verið fram og lúta að rafvæðingu hafna kostnaðarmetnar.

Í þriðja lagi um spurningu hvort ráðherra telji koma til greina að ríkissjóður taki þátt í því með hafnarsjóðum sveitarfélaganna að greiða þann kostnað sem hlýst af rafvæðingu hafna þá er því til að svara að það er einn af þeim þáttum sem eru til sérstakrar skoðunar. Ljóst er að rafvæðing hafna er almennt séð kostnaðarsöm og það vitum við, sérstaklega hvaða stærri skip varðar og mikilvægt er að tryggja sem besta ráðstöfun þess fjármagns sem afmarkað hefur verið til orkuskipta í samgöngum og á hafi. Samstarf við sveitarfélög er mikilvægt í því sambandi og þátttaka með hafnarsjóðum sveitarfélaganna er einn af þeim þáttum sem starfshópur ráðuneytanna hefur til skoðunar í vinnu sinni.

Við erum því áfram að vinna okkar heimavinnu, reyna að greina hver staðan er, hvað hlutirnir kosta. Það sem við vitum er að tækni er ekki hindrun, en það sem við vitum líka er að þetta er dýrt. Þegar við horfum á mögulegan árangur fyrir það fjármagn sem við höfum þá höfum við verið með sérstaka áherslu á orkuskipti samgangna á landi og í mínum huga er það rétt forgangsröðun. En það breytir því ekki að ótrúlega mikil tækifæri eru, líkt og hv. þingmaður kom inn á, í rafvæðingu hafna. Það er það sem koma skal. Það er það sem við munum á endanum vilja ná, en þegar kemur að þessum stærstu skipum er orkuþörf þeirra svo mikil á skömmum tíma að það er eitthvað sem ég held að enn sé töluverður tími í að við náum. En ekki er þar með sagt að ekki sé margt annað í rafvæðingu hafna sem er eftirsóknarvert og raunsætt að ná.