150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að svara spurningu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur vil ég segja að sú greining liggur fyrir. Við erum ekki með flutningskerfi sem myndi ráða við orkuskipti í höfnum að öllu leyti. Af því að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á orð mín um forgangsröðunina sagði ég ekki að orkuskipti í höfnum væru minna aðkallandi, heldur tæki forgangsröðun orkuskipta í samgöngum á landi mið af árangri fyrir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar. Meiri árangur næst fyrir minni fjármuni í orkuskiptum samgangna á landi og þess vegna höfum við lagt áherslu á það. En hitt verkefnið fer alls ekki frá okkur og markmiðið er að hægt verði að fara í orkuskipti í höfnum líka með stærri skip. Á Ísafirði og fleiri stöðum eru háspennutengingar ekki til staðar fyrir þessi stóru flutningaskip og skemmtiferðaskip í dag. Það er því ansi stórt verkefni sem við stöndum frammi fyrir þar.

Hvað varðar stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa erum við núna, á grunni stefnurammans í ferðaþjónustu þar sem við höfum markað stefnu um rammann til ársins 2030, að hefja vinnu við aðgerðabundna áætlun til að ná þeim markmiðum. Það er alveg ljóst að við þurfum að marka okkur stefnu í móttöku skemmtiferðaskipa sem þarf þá að markast innan stefnurammans og ég fagna frumkvæði hv. þingmanns í þeim efnum. Þar þarf að horfa til ýmissa þolmarka, verðmætra markaða og auðvitað líka hvað þeir ferðamenn gefa okkur í fjölbreytni, horfa líka til þeirrar fjölbreytni sem þeir skila, en spyrja þó hvar þolmörkin eru og sömuleiðis hvað hafnirnar ráða við mikið. Ef þær ráða ekki við það þurfum við fjárfestingu þar og þá þarf að horfa á það til hliðar við til að mynda fjárfestingu í samgöngukerfinu. Ef (Forseti hringir.) við þurfum að forgangsraða fjármunum þá þurfum við að taka heiðarlegt samtal um í hvað fjármunum er best varið.