150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kynntu í gær áform sín um að taka til hendinni við einföldun regluverks í ráðuneytum sínum. Þessu framtaki ber að fagna. Regluverk á alltaf að hafa skýran tilgang og vera eins einfalt og skilvirkt og nokkur kostur er, vera hvetjandi til framtaks án þess að markmiðum regluverksins sé stefnt í voða. Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að fela forsætisráðherra að láta vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Við vinnuna verði leitað eftir samstarfi við efnahags- og framfarastofnunina OECD. Slík úttekt yrði til mikils gagns við það verkefni sem ráðherrarnir hafa boðað og þess vegna vænti ég þess að þessi tillaga Viðreisnar fái framgang á þessu þingi.

Herra forseti. Í gær var einnig lagt fram í samráðsgátt frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Þau lög er sjálfsagt að skoða og endurmeta eins og öll önnur. Hér er þó full ástæða til að stíga varlega til jarðar og gæta þess að missa ekki sjónar á því að lögin eru mikilvæg neytendavernd. Þau eru skjól smærri fyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja gegn misnotkun stærri fyrirtækja á stöðu sinni og gegn óæskilegri samþjöppun í atvinnulífinu. Sterkt og virkt samkeppniseftirlit gegnir þar lykilhlutverki. Við endurskoðun samkeppnislaga er mikilvægt að taka allt atvinnulífið undir ákvæði þeirra en undanskilja ekki greinar á borð við mjólkuriðnaðinn og verjast hugmyndum um að undanskilja aðrar greinar með sama hætti.

Herra forseti. Það verður að segjast að ekki er á vísan að róa í meðferð samkeppnismála þar sem ríkisstjórnin er, enda erfitt að sjá að hún sé sérstakur málsvari samkeppni á mörgum sviðum.