150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ekki ætla ég að vera á móti frjálsum viðskiptum og góðu samstarfi milli ríkja. Ég bendi auðvitað á að við erum á margan hátt í þannig sambandi við margar þjóðir. Ég nefni Hoyvíkursamninginn, Norðurlandasamstarf, EES-samninginn og vestnorrænu ríkin. Auðvitað getum við styrkt þetta enn frekar. En hér var spurt hvort allir vildu vera með. Það má benda á að það eru kannski tvær ástæður fyrir því að það er ekki fríverslunarsamningur við Bandaríkin. Í fyrsta lagi gera Bandaríkjamenn kröfur um niðurfellingu tolla á landbúnaðarvörum — hverjir skyldu helst hafa staðið gegn slíkum samningum? Og í öðru lagi hafa Bandaríkjamenn einfaldlega ekki haft mikinn áhuga á slíkum samningi.

Hv. þm. Óli Björn Kárason talaði um að það væri hlutverk íslenskra stjórnvalda að fjölga tækifærum þjóðarinnar, ekki fækka þeim, og ég er honum innilega sammála. Stundum þarf samt líka að hugsa um að viðskiptahagsmunir til skemmri tíma geta strítt gegn lengri tíma hagsmunum þjóða. Ég tel t.d. mjög varasamt að blanda saman viðskiptahagsmunum og varnarhagsmunum eins og mér finnst augljóst að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið að gera í samtölum við Bandaríkin. (Gripið fram í: Hvernig veistu það?) Mér hafa líka þótt þingmenn og aðrir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins sjá tækifæri í glundroða, ekki betri samskiptum við þjóðir. Ég get nefnt Brexit, jafnvel hamfarahlýnun, óstöðugleika vegna Trumps. Sjálfstæðismenn hafa viljað halla sér að Bandaríkjamönnum þrátt fyrir óróa þar, séð tækifæri í Brexit í staðinn fyrir að þétta samvinnu við Evrópuríkin sem ég tel að sé í öllu falli miklu heillavænlegra. Þetta eru nágrannaþjóðir okkur og eru líkastar okkur í menningu og þetta eru þær þjóðir sem hvað sterkast kveða að orði þegar kemur að áskorunum framtíðarinnar varðandi hamfarahlýnun.