150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:42]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við fríverslunarsamninga í Norður-Atlantshafi að frumkvæði hv. þm. Óla Björns Kárasonar og höfum heyrt andsvar hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og ýmis sjónarmið hafa komið fram í umræðunni. Fram hefur komið hversu mikilvægir fríverslunarsamningar Íslands eru, bæði í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Evrópska efnahagssvæðið, auk fleiri samninga sem gefa Íslendingum aðgang að um 1,2 milljarða manna markaði, eins og kom fram í svari hæstv. utanríkisráðherra. Fram hefur komið að unnið sé markvisst að því á vegum ríkisstjórnarinnar að koma á efnahagssamningi við Bandaríkin og gefa með því íslensku atvinnulífi aðgang að hundraða milljóna markaði með íslenska framleiðslu, hugvit og annað sem við erum mjög stolt af og teljum eiga mikla möguleika á að ná góðum árangri á Bandaríkjamarkaði.

Ef ég beini athyglinni aðeins að Norður-Atlantshafi frekar og því sem er til í dag eru til sjóðir í samnorrænu samstarfi okkar, eins og t.d. Vestnorræni lánasjóðurinn, Vestnordenfonden, sem gefur tækifæri á auknu samstarfi og samvinnu á efnahagslegu sviði milli landanna. Þar er Ísland eigandi ásamt öðrum Norðurlöndum, Grænlandi og Færeyjum. Þarna er tækifæri sem hefur af Íslands hálfu ekki verið nýtt mjög mikið undanfarin ár, þ.e. að fara inn í fjárveitingar til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem vinna í frumkvöðlastarfsemi og styrkja grunneiningarnar á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Þarna eru tækifæri sem við ættum að nýta betur á meðan unnið er að því að skoða draum hv. þm. Óla Björns Kárasonar um fríverslunarsamninga í Norður-Atlantshafinu í heild.