150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2019 um breytingu á I. og II. viðauka við EES-samninginn.

274. mál
[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2019 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/625, um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur, sé beitt og um breytingu á nokkrum öðrum reglugerðum. Tilskipunin og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins verði tekin upp í EES-samninginn.

Markmið reglugerðarinnar er að flytja eftirlitsákvarðanir úr öðrum reglugerðum yfir í eina reglugerð sem geymir allar eftirlitsákvarðanir matvælakeðjunnar í heild sinni. Það leiðir til samræmis á milli málaflokka og öruggara matvælaeftirlits, auk þess sem það stuðlar að einföldun.

Innleiðing reglugerðarinnar mun fela í sér ávinning vegna samræmds eftirlitskerfis fyrir alla matvælakeðjuna, aukins gagnsæis og ábyrgðar lögbærra yfirvalda með birtingu upplýsinga um skipulag og niðurstöður eftirlits. Með innleiðingu reglugerðarinnar verður regluverk fyrir inn- og útflutning samfellt sem stuðlar að heilsteyptara og einfaldara regluverki. Jafnframt felur gerðin í sér meiri sveigjanleika við faggildingu á rannsóknastofum, öflugri ferla og sterkara eftirlit sem fyrirtæki og eftirlitsstofnanir munu hafa hag af. Það er einnig markmið reglugerðarinnar að tryggja að opinber stjórnvöld Evrópuríkja séu samræmd og að til staðar séu stofnanir, kerfi og aðgerðir til að tryggja að farið sé eftir regluverki á sviði matvæla.

Loks setur reglugerðin ítarlegar kröfur um bjargir, áhættumat, innleiðingu eftirlits, innri úttektir og ESB-úttektir. Þess má vænta að breytingar verði gerðar á lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, lögum um slátrun og sláturafurðir, nr. 96/1997, og lögum um sjávarafurðir, nr. 55/1998. Einnig má gera ráð fyrir að sett verði reglugerð um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.