150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki sanngjarnt að hæstv. ráðherra ætlist til að ég muni ræður allra þingmanna í Samfylkingunni um öll mál. Við í Samfylkingunni höfum ekki talið það slæma hugmynd að stofna þjóðarsjóð til ráðstöfunar við meiri háttar áföll í samfélaginu. Það er hins vegar útfærslan sem kemur fram í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem við gagnrýnum og að það sé horft aðeins á arð af orkuauðlindum í eigu ríkisins sem eru endurnýjanlegar. Það er miklu nær, herra forseti, að stofna sjóð í kringum auðlindir sem eru ekki endurnýjanlegar, sem eru námur eins og norski olíusjóðurinn, eða í kringum fiskveiðiauðlindina okkar. Það er miklu nær að setja slíkt í sjóð til að geyma til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir þannig að við séum ekki að nýta það, bara sú kynslóð sem hér sem hér lifir. Um endurnýjanlegu orkuauðlindirnar gilda bara önnur lögmál, eins og ég fór ágætlega yfir í ræðu minni. En við erum ekki sammála um þetta, ég og hæstv. hæstv. ráðherra. Ég leyfi mér að efast um að aðrir þingmenn Samfylkingarinnar telji það ekki góða hugmynd að stofna auðlindasjóð þar sem auðlindarentan af auðlindum þjóðarinnar rennur í sjóð sem getur virkað sem sveiflujafnandi því það er góð hugmynd. En það er bara ekki um það sem þetta frumvarp snýst.