150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkum spurt um tvennt, mögulega þrennt. Í fyrsta lagi hvort haft verði samráð. Málið gengur til nefndar eftir að þessari umræðu lýkur og fer í umsagnarferli. Ég er í engum vafa um að meðal þeirrar vinnu sem bíður nefndarinnar er að fara aftur yfir athugasemdir og spyrja þá spurninga sem ætla að bera ábyrgð á þessari stofnun og þar mun ráðuneyti mitt vera reiðubúið til að veita svör eftir því sem hægt er. Ég vil nefna í því samhengi að yfirmaður skattsins verður fyrrverandi tollstjóri Íslands, Snorri Olsen, sem gjörþekkir þau verkefni sem hv. þingmaður nefnir. Það ætti að verða til þess að auka skilning manna og trú á því að tollgæslumálin verði á engan hátt jaðarsett í sameinaðri stofnun heldur voru þau til skamms tíma meginverkefni og hlutverk þess sem verður yfirmaður stofnunarinnar. Þar er að finna alla þekkingu á helstu verkefnum.

Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr því að það kunni að hafa verið þannig á undanförnum árum og jafnvel enn að einhverju marki að við þurfum að vinna á uppsöfnuðum vanda, t.d. hvað varðar endurnýjun tækjabúnaðar og slíka þætti. Ég get ekki svarað því öðruvísi en að ég tek undir mikilvægi þess að þeim verkefnum sé sinnt vegna þess að vel búin tollgæsla, ekki síst hvað varðar ýmis greiningartól, er algjör forsenda þess að við náum þeim árangri sem við stefnum að.