150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[16:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um grænan samfélagssáttmála og óska Samfylkingunni og Pírötum til hamingju með að hafa lagt hana fram sameiginlega. Þarna eru góðar tillögur og þarfar, til að mynda að Ísland verði kolefnishlutlaust land fyrir árið 2030 sem er metnaðarfullt áform.

Mig langaði aðeins að minnast á eitt sem ég fagna líka. Mikil áhersla er lögð á framtíðarnefnd forsætisráðherra sem ég tel vel og það rímar mjög vel við hlutverk framtíðarnefndarinnar að fjalla um loftslagsmálin og þær áskoranir sem bíða okkar og sömuleiðis varðandi að taka upp nýja mælikvarða á velsæld í hagkerfinu með hliðsjón af og áherslu á loftslagsmálin. Ég veit að 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er mikil áhugakona og talsmaður velsældarmælikvarða í hagkerfinu. Þetta rímar líka mjög vel við áherslur hennar.

Ég fagna víðtækri alþjóðlegri samvinnu sem verður að eiga sér stað til að ná Parísarsamkomulaginu og þeim áætlunum sem við höfum undirgengist þar. Ég fagna því en mig langar að heyra aðeins nánar varðandi útstreymi frá stóriðju. Á bls. 3 í greinargerð þingsályktunartillögunnar er talað um að nauðsynlegt sé að draga verulega úr útstreymi frá stóriðju. Mig langar að heyra 1. flutningsmann tillögunnar segja nánar frá því hvað hún telji þetta geta falið í sér, hvort við þurfum hreinlega að fara að stytta samninga eða taka á okkur einhverjar róttækari aðgerðir þegar kemur að stóriðjunni. Ég hef sjálf talað fyrir því að það þurfi að taka á losun (Forseti hringir.) á stóriðjunni til að minnka losun á Íslandi. Það verður áhugavert að heyra hvaða 1. flutningsmaður segir um þau áform.