150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég verð að taka fram að ég tala fyrir mig í þessu máli varðandi breytingar en ég er ekki með einhverjar fullmótaðar hugmyndir um hvernig skattkerfið eigi að breytast. Það sem mér finnst mikilvægast og er hugmyndin sem við erum með með þessari þingsályktunartillögu er að opna á samtalið og fara í mjög konkret markmiðasetningu þannig að við komum okkur saman sem þjóð og sem þing um það hvaða markmið okkur finnist mikilvægt og fara svo út frá stærra samtali og þverpólitískri vinnu að búa til aðgerðalista og koma með þingmál til að ná tilsettum markmiðum. Við erum að leggja til að við förum í heildræna nálgun á málaflokkinn og aðeins að skoða breytta hugmyndafræði og breytta hvata í kerfinu okkar.

Varðandi einstakar breytingar í skattamálum er ég ekkert endilega með það á hreinu. Ég er oft talin vera með mjög furðulegar pælingar um það hvernig ég vilji breyta velferðarkerfinu og skattkerfinu en það á ekkert endilega við, ég er alveg til í að kasta því út í umræðuna en mér finnst það ekkert endilega vera bara okkar hérna að ákveða það. Það verður að vera hluti af stóra samhenginu og stærra samtali um hvert við viljum stefna í framtíðinni. En ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverðar spurningar.