150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grunnskólar.

230. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er sannarlega rétt, eins og ég nefndi áðan og sem þingmaðurinn byrjaði á að nefna, að kostnaðinum sé velt yfir á sveitarfélögin. Við þekkjum það hafandi bæði starfað sem sveitarstjórnarfólk og þess vegna veit ég að það eru mjög fá sveitarfélög eftir þegar kemur að þessu og þess vegna er mikilvægt, finnst mér, að þetta sé lögfest til að tryggja jafnræði.

Hver eru nauðsynleg námsgögn? Það er í rauninni ekki okkar að ákveða, að mínu mati. Ég nefndi blýant hér áðan og hv. þingmaður spjaldtölvur — ef gerð er krafa um það að nemendur noti spjaldtölvur er það ekki eitthvað sem mér þykir að foreldrar þurfi að skaffa fyrir börn sín. Það er apparat sem kostar töluverða peninga og þá hlýtur skólinn bara að innleiða það hjá sér að öll börn hafi aðgang að því — sem ég geri ráð fyrir að sé raunin. Við höfum auðvitað séð slík tæki færast töluvert inn í skólana, sem betur fer, alls konar félagasamtök gefa einum árgangi o.s.frv. Nauðsynleg námsgögn eru þau sem skólinn krefur barnið um að það þurfi að nota á hverjum tíma. Það hlýtur alltaf að vera þannig að það sem nemandinn þarf til að geta sinnt því sem lagt er fyrir hann, það eru hin nauðsynlegu námsgögn. Og eins og ég sagði áðan er þetta mismunandi. Kostnaðurinn gat á þessum árum sem ég taldi upp, 2017 og 2018, numið frá 400 kr. upp í 22.000 kr. Það eru mjög mismunandi kröfur og við þekkjum að það hefur líka verið mismunandi rukkað fyrir alls konar efnislegan kostnað annan, t.d. tengdan verkgreinum og öðru slíku. Aðrir skólar hafa ekki rukkað neitt. Þannig að ég held að einfalda svarið sé: Sem betur fer er skólinn fjölbreyttur og kennir á mismunandi hátt en hann krefst einhvers af nemendum sínum sem þeir þurfa að hafa aðgengi að. Þá eru það nauðsynleg námsgögn.