150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grunnskólar.

230. mál
[18:25]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Við nefnilega lifum sannarlega nýja tíma. Ég vil meina að nauðsynlegt námsgagn í dag sé spjaldtölva og við erum að sjálfsögðu að fara þangað. Það er alltaf einhver sem borgar, hvort sem það eru sveitarfélögin, ríkið, félagasamtök, fyrirtæki sem gefur 50 spjaldtölvur í einhvern skóla o.s.frv. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi sannarlega skaffa nemendum spjaldtölvur er það til fyrirmyndar eins og er í Kópavogi og Árskóla í Skagafirði o.s.frv. þar sem menn hafa vel staðið að þessu. En hvers vegna erum við á þeim stað að tala um einhver grunnnámsgögn — blýantur, strokleður, yddari, gráðubogi o.s.frv.? Við höfum aldrei tekið umræðu um matinn í heimilisfræðistofunni, talandi um það að við erum að færa okkur yfir í það að þurfa að vera með meira verklegt og tæknilegt nám. Við höfum aldrei talað um að timbrið í smíðastofunni sé grunnnámsgagn. Við þurfum að taka umræðu um það hver þessi nauðsynlegu grunnnámsgögn séu. Það er spjaldtölva sem hver og einn nemandi á og þyrfti að hafa. Ég er þeirrar skoðanir að sveitarfélögin eigi sannarlega að greiða fyrir þetta og ég vil aftur segja það: Hérna er löggjafinn, ríkisvaldið, að setja einhver lög sem sveitarfélögin þurfa síðan að útfæra hjá sér og síðan að standa straum af kostnaði. Ég er algjörlega sammála þingmanninum að það á ekki að varpa þeim kostnaði yfir á fjölskyldur og heimili. Ég tek undir með þingmanninum í því. Mótorhjól getur þess vegna verið nauðsynlegt námsgagn fyrir nemanda. Far þú, vinur, og taktu sundur mótorhjól í þrjá mánuði og settu það svo saman aftur þannig að þú getið ekið mótorhjólinu þegar skólaárið er búið. Það getur verið nauðsynlegt námsgagn fyrir einhvern.