150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

innheimta skatta.

[11:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. fjármálaráðherra lýtur að svari sem ég fékk við fyrirspurn frá hæstv. fjármálaráðherra um daginn þar sem fram kemur að í íslenska hagkerfinu séu að áliti starfsmanna hans að staðaldri á sveimi 80 milljarðar kr. sem ekki eru greiddir skattar af. Miðflokkurinn hefur líklega í tvö ár flutt tillögur við 2. umr. fjárlaga um að herða á skattinnheimtu, aðallega til að stuðla að heilbrigðari samkeppni. Allir sjá að heilbrigð samkeppni er ekki þar sem sumir borga skatta en aðrir ekki. Tillögum okkar þessi ár um að efla embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra hefur verið fálega tekið.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki í ljósi þessara upplýsinga nauðsynlegt að herða innheimtu á þegar álögðum sköttum og koma í veg fyrir að 80 milljarðar kr., u.þ.b. 8% af fjárlögum hvers árs, séu á sveimi í hagkerfinu án þess að af þeim sé greiddur skattur.

Ég minni á það sem fram kom í umræðu í gær, að þó að við næðum eingöngu 10% af þessari tölu væru það 8 milljarðar kr. árlega. Eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra í fyrradag vill hann útbúa þjóðarsjóð og greiða í hann 10 milljarða á ári í nokkur ár.

Finnst hæstv. fjármálaráðherra ekki tímabært fyrir löngu að herða á þessu og taka undir tillögur okkar í Miðflokknum um að herða skatteftirlit og skattinnheimtu?