150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[11:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef verið hlynntur aðild Íslands að NATO, oft með semingi þó vegna þess að NATO hagar sér oft ekki ásættanlega að mínu mati. Hins vegar enda ég alltaf á að líta til öryggis- og varnarhagsmuna Íslands sem eru til staðar. Sama hvort við erum herlaus þjóð eða ekki eru þessir varnar- og öryggishagsmunir til staðar og ég hef ekki getað litið fram hjá þeim.

Ég ætla að styðja tillöguna vegna þess að ég tel hana vera í þágu öryggishagsmuna Íslands. Hins vegar þykir mér í ljósi nýliðinna atburða sem varða tvær NATO-þjóðir, Tyrkland og Bandaríkin, ástæða til að velta upp spurningunni hvort það séu raunverulega öryggis- og varnarhagsmunir Íslands að vera í NATO, alveg burt séð frá öllu sem fólki finnst um hegðun NATO af og til. Ef við lítum alveg blákalt á öryggis- og varnarhagsmuni Íslands get ég spurt hvort það séu hagsmunir okkar að vera í þessu bandalagi miðað við þá hegðun sem höfum séð frá ákveðnum leiðtogum upp á síðkastið. Mér finnst þess virði að spyrja að því.

Mér finnst þessi tillaga þó ekki varða (Forseti hringir.) það beint og því styð ég hana, þó með þessum fyrirvara.