150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski segja að stjórnarskráin sem tók gildi hafi ekki farið í neitt sérstaklega lýðræðislegt ferli, við vorum ekki einu sinni sjálfstæð þjóð þegar við tókum hana upp, enda allar þessar stjórnarskrár í grunninn þær sömu og sama stjórnskipan. Ég er ekkert á móti breytingum en það skiptir mig miklu máli hvernig þær eru framkvæmdar og það er ekki við aðstæður eins og þær sem voru uppi þegar menn fóru í breytingarnar á sínum tíma, auðvitað bara með aðkomu þeirra sem höfðu áhuga á að breyta miklu og búa til nýja stjórnarskrá. Það endurspeglar ekki endilega þjóðina þó að þetta fyrirkomulag hafi verið haft á.

Það er rétt að lögð var heilmikil vinna í þetta, mjög mikil vinna, sérstaklega eftir að tillögurnar komu frá stjórnlagaráðinu. Það var lögð mikil vinna í þetta og farið yfir það af sérfræðingum og það er enn verið að gera það. Ég legg hins vegar miklu meiri áherslu á að þetta verði ekki gert á þann hátt að einhver hópur verði kosinn eða skipaður, eins og gert var með stjórnalagaráð, sem kemur svo hér og segir: Jú, þið megi kannski koma með einhverjar ábendingar og laga þetta en í grunninn er það svona. Fólk var ekkert að kjósa um það. Það sem fólkið í landinu hefur áhuga á er einkum tvennt, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og ákvæði um auðlindir. Að mínu viti hefur þjóðin ekki kallað eftir neinu öðru svo að áberandi sé. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að allar breytingar verði unnar áfram, ég tala nú ekki um stórar breytingar og gjörbreytingar, að þær verði gerðar í sæmilegri sátt, þverpólitískri sátt. Annars verður þetta aldrei neitt sem við getum kallað samfélagssáttmála. Þá er bara meiri hlutinn að berja minni hlutann niður. Ég tel þá leið ekki skynsamlega sem reynt var að fara á árunum eftir hrun.