150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti. Þetta eru þau skýru sameiginlegu grunngildi sem yfir 1.200 manneskjur sammæltust um árið 2009 að hafa skyldi að leiðarljósi við vinnu þeirra að nýrri framtíðarsýn fyrir Ísland. Sú vinna fór ekki fram í tómarúmi. Hún var svar við ákalli þjóðarinnar um bætt samfélag fyrir alla, samfélag sem byggði á grunngildum sem markvisst hafði verið grafið undan í aðdraganda hrunsins. Þjóðfundurinn varð til vegna þess trúnaðarbrests sem varð milli þings og þjóðar í kjölfar bankahrunsins. Þá vöknuðu margir upp við vondan draum og sáu að stjórnmálamenn höfðu ekki farið vel með það umboð sem þeim hafði verið veitt til að starfa í þágu þjóðarinnar. Tengsl milli stjórnmálamanna og viðskiptalífsins voru of sterk og of vinaleg. Fjölmiðlar voru veikir og gátu illa sinnt starfi sínu. Eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu gagnvart bönkunum og ríkisstjórnin flaut sofandi að feigðarósi. Það má reyndar segja að sumir innan hennar hafi verið vakandi á þeirri vegferð en haldið að sér höndum í andstöðu við þjóðarhag.

Úr varð stjórnlagaráð sem færði Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá, drög sem samþykkt voru með góðum meiri hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmum sjö árum síðan. Þetta er þjóðaratkvæðagreiðsla sem Alþingi Íslendinga hefur neitað að virða, hefur neitað að leita leiða í lög allar götur síðan.

Forseti. Flokkarnir sem mynda ríkisstjórn Íslands í dag hafa haft mislangan tíma til að tryggja að farið verði að vilja þjóðarinnar um innleiðingu nýrrar stjórnarskrár en allir hafa þeir haft tækifæri til þess. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn völdu að stinga stjórnarskránni ofan í skúffu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum árið 2013. Vinstrihreyfingin – grænt framboð valdi svo árið 2017 að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum sem hafa sýnt það í verki að þeir standa í vegi fyrir kröfu þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála. Eflaust héldu margir að atkvæði til Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, atkvæði til hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur myndi leiða til þess að hún myndi beita sér fyrir því að lýðræðislegur vilji þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans okkar, yrði virtur. En því miður er staðan sú árið 2019 að meiri hluta þessa þings finnst ásættanlegt að geyma nýju stjórnarskrána áfram ofan í skúffu og semja frekar sín á milli um einstök ákvæði frumvarpsins. Því miður er staðan sú árið 2019 að við höfum forsætisráðherra sem situr í skjóli svikinna loforða, loforða sem hún gaf eigin kjósendum sem síst af öllu kusu hana til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi, forsætisráðherra sem talar fjálglega um samráð við almenning um úrbætur á stjórnarskrá en hunsar þó frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár í nafni sátta og samráðs við Sjálfstæðisflokkinn, flokk sem ávallt hefur staðið gegn nýju stjórnarskránni, gert lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og lýðræðislegum vilja þjóðarinnar sem þar birtist.

Forseti. Í besta falli lýsir þessi nálgun meiri hluta Alþingis grundvallarmisskilningi á eðli stjórnarskrárinnar sem samfélagssáttmála og þjóðinni sem stjórnarskrárgjafanum sem setur okkur, löggjafanum, leikreglur lýðræðisins. Í versta falli lýsir hún sjö ára djúpstæðri andstöðu valdhafa við lýðræðið og mikilli óvirðingu þingsins gagnvart því umboði sem þjóðin veitir því.

Forseti. Við sem hér störfum eigum að ganga fram með góðu fordæmi og taka ábyrgð, segja satt og rétt frá og standa við orð okkar, ekki fela okkur á bak við tæknilegt kjaftæði um að við höfum aldrei beinlínis lofað því að leiða ekki Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki segjast fyrir kosningar styðja að frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði að lögum en segja svo eftir kosningar að stjórnarskrána megi búta í sundur og bixa með að vild.

Forseti. Mér líður pínu eins og bilaðri plötu því ég hef áður flutt þessa ræðu og aðra eins. Í umræðum um síðustu stefnuræðu forsætisráðherra reyndi ég við bjartsýni og vildi hvetja ríkisstjórnina til dáða með hugrekki og þor að leiðarljósi. Ég sagði að vissulega þyrfti hugrekki til að takmarka sitt eigið vald. Það þarf þor til að standa með vilja þjóðarinnar, jafnvel þó að hann kunni að skarast á við eigin hagsmuni. Það þarf bjartsýni til að takast á við þær breytingar sem ný stjórnarskrá hefur í för með sér, bjartsýni og bjargfasta trú á að þjóðin viti best hvernig landinu skuli stjórnað og hvernig takast skuli á við nýja tíma í óvissum heimi.

Þessi afstaða mín hefur ekki breyst, forseti. Og nú er lag fyrir hv. þingmenn meiri hlutans og hæstv. ríkisstjórn að bregðast við hvatningu minni. Það er að vísu vonbrigði að enginn hv. þingmaður annarra flokka og þá enginn hv. þingmaður meirihlutaflokkanna noti tækifæri til að halda ræðu, a.m.k. ekki að svo komnu máli. Koma vissulega upp í andsvör við okkur flutningsmenn en kjósa að deila ekki sinni sýn með þjóðinni, nú þegar við leggjum stjórnarskrána aftur fram, spyrja okkur út í tæknileg atriði í stað þess að deila sinni sýn í eigin ræðu.

Forseti. Tækifærið er enn til staðar. Við Píratar og Samfylkingin leggjum til að Alþingi virði vilja þjóðarinnar og leiði nýja stjórnarskrá í lög. Píratar lögðu frumvarpið fram á síðasta þingi í því horfi sem þingið skildi við það þegar því var stungið ofan í skúffu árið 2013. Samfylkingin hefur nú tekið við keflinu og flytur málið á þessu þingi. Með framlagningu frumvarpsins viljum við gefa öllum þjóðkjörnum þingmönnum hér tækifæri til að leiða lýðræðislegan vilja þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans, í lög. Ég vil hér með hvetja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, til að víkja af þeirri braut að búta vilja þjóðarinnar niður og semja um hann við Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil hvetja hana til að leggja okkur lið og að efna loforð sem hún hefur gefið og virða vilja stjórnarskrárgjafans á Íslandi og greiða götu þessa frumvarps í gegnum þingið.