150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[16:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir andsvarið. Ég er reiðubúin að sýna og fara yfir allt sem hefur gerst á því tímabili frá því að við fengum stjórnarskrána til dagsins í dag enda hef ég tekið þetta saman og lúslesið og þess vegna gat ég t.d. á þessum stutta tíma nefnt hversu oft hefur verið gerð tilraun til breytinga o.s.frv. Á tíu mínútum er samt ansi flókið að fara djúpt ofan í allar tillögur sem allar þær fjölmörgu nefndir sem ég nefndi áðan, sem hafa verið settar saman til að breyta stjórnarskránni, hafa lagt til. Það er ógerningur á tíu mínútum. Ég er hins vegar fús til að taka þetta saman og ég er viss um að upplýsingasvið Alþingis er einnig tilbúið að taka saman þessar upplýsingar vegna þeirrar vinnu sem fram undan er í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Vegna orða hv. þingmanns um að heildarendurskoðun á stjórnarskrá hafi allt annan blæ í dag en árið 1944 verð ég eiginlega að velta fyrir mér hvers vegna hv. þingmaður haldi því fram. Ég leyfi mér að efast um að hann viti það endilega og sé með það á hreinu því að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi verið lengur á þingi en flestir og sé eldri en margir leyfi ég mér að efast um að hann hafi verið á þingi árið 1944 og geti því sagt til um það hvers konar blæbrigði hafi verið í umræðunni um heildarendurskoðun stjórnarskrár á þeim tíma.